148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður tekur undir að það séu háleit markmið sem sett séu fram af ríkisstjórninni og fyrir þennan málaflokk. Ég fagna þeim stuðningi sem ég finn frá hv. þingmanni með það. Spurningin um það hvort hér sé nóg að gert er stór og kannski erfitt að svara henni til fullnustu.

Það sem við erum að horfa á núna, ef við miðum við árið 2017, er 35% aukning til umhverfismála, við höfum ekki séð það áður. Svar mitt verður eiginlega það hér í dag til hv. þingmanns að það er ekki slæm byrjun á þeirri vegferð sem við erum að fara í núna til að reyna að koma þessum málaflokki á þann stað sem hann vissulega þarf að vera á. Ég heyri að þingmaðurinn mun styðja mig og aðra í því að reyna að ná því markmiði.

En hvort upphæðin er akkúrat nóg, ég ætla að leyfa mér þann munað að svara því ekki með já-i eða nei-i, heldur vísa í það að hér er um verulega aukningu að ræða til málaflokksins sem ekki hefur sést áður.