148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil við þessa umræðu um fjármálaáætlun 2019–2023 byrja á að fagna innilega þeim verulegu viðbótarframlögum sem áætluð eru til málefnasviðsins umhverfismál. Eins og fram kom í máli ráðherra dreifast áherslurnar að minnsta kosti á þrjá málaflokka af fimm með samnefnara í náttúruvernd og loftslagsmálum. Áherslur í málaflokkunum snúast, auk loftslagsmála, að miklu leyti um verndun, vöktun og uppbyggingu á gróður- og jarðvegsauðlindinni og geta þá um leið dregið úr losun kolefnis og aukið bindingu þess og þannig stutt við markmið Íslands í loftslagsmálum.

Að því sögðu ætla ég að snúa mér að skógræktinni eins og fleiri þingmenn hafa gert hér á undan. Ég fagna sérstaklega orðum ráðherra um að hluti af auknum framlögum til loftslagsmála muni fara til skógræktar og sé í þeirri stöðu tækifæri til að standa við þá samninga sem gerðir hafa verið af Skógræktinni við bændur, bændur sem nú þegar hafa skuldbundið sig til að taka ákveðinn hluta af landi í sinni umsjá til skógræktar. Land sem er tilbúið og búið er að skipuleggja og er í raun í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir um landnýtingu, auk þess sem fjárfest hefur verið í faglegri skipulagningu á landinu með fjárframlögum til Skógræktarinnar. En eigi að auka í endurheimt landgæða með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis krefst þetta allt saman undirbúnings.

Ég hef dálitlar áhyggjur af því ef skiptingin á milli þessara aðferða í endurheimt landgæða liggur ekki fyrir fyrr en við fjárlagagerðina. Ég spyr því: Er eitthvert samtal í gangi við stofnanir og bændur sem þurfa að koma að framhaldinu um framkvæmdina?