148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Varðandi síðasta atriðið, landvörsluna, þá tek ég undir með hv. þingmanni að ég tel mjög mikilvægt að hún nýtist sem allra best sem víðast. Auðvitað forgangsröðum við þeim svæðum sem eru friðlýst, þjóðgörðunum, enda er það ákveðið grunnskilyrði, má segja, til þess að halda úti landvörslu þó svo að alveg sé hægt að sjá einhverja fleti á því að fólk horfi ekki bara eftir útlínum friðlandsins. Ég hef sjálfur unnið sem landvörður. Ef maður hefði alltaf hugsað þannig hefði maður kannski gert minna gott en maður gerði vonandi. Þannig að ég tek undir það.

Varðandi plastmálin höfum við verið að vinna að því í ráðuneytinu að taka saman hvar þessi mál standa almennt. Ég hef lagt áherslu á að við þurfum að byggja á rannsóknum, t.d. hvað varðar örplastið, hvaðan það kemur og með hvaða hætti það berst til sjávar. Þarna vil ég líka nefna að ég myndi vilja sjá meiri áherslu á nýsköpun til að búa til nýjar aðferðir til að leysa plastið af hólmi og sérstaklega einnota plastið. Ég á von á því að áætlanir hvað þetta varðar geti litið dagsins ljós vonandi sem fyrst á næstu mánuðum.

Varðandi vöktunina þá er alveg rétt að um síðustu áramót var samþykkt áframhald á því að geta notað fjármagn í rannsóknir hvað varðar ofanflóðamálin. Hins vegar er ekki um aukningu á fjárheimildum að ræða inn á þetta fimm ára tímabil sem nú er að hefjast frá því sem við verið hefur, þess vegna gerum við ráð fyrir að hægt verði að klára þær þrjár framkvæmdir sem þarna er um að ræða og ráðast í þrjár nýjar. Hvort hægt verður að gera betur en það verður eiginlega að koma í ljós eftir því hvernig spilast úr þeim fjármunum sem nýttir verða í þessi svæði.