148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Ég held að við séum kannski, í ljósi þess hve margir hafa komið inn á málefni skógræktar, dálítið að horfa til þess að fólk saknar þess að sjá ekki orðið skógrækt koma oftar fyrir í áætluninni eða saknar þess að sjá ekki að sagt sé nákvæmlega fyrir um hvað mikið fari til skógræktarinnar.

Eðli stefnunnar, eins og hún er sett fram í fjármálaáætlun, er ekki að segja að X margar milljónir fari í ákveðin verkefni. Ég hef sagt það í dag og mér er ljúft og skylt að segja það aftur að fyrirhugað er að setja aukið fjármagn til landgræðslu og skógræktar og endurheimtar votlendis. Það er verið að vinna að því í ráðuneytinu núna hvernig það verði nákvæmlega útfært, hve mikið fari til hverra af þessum mismunandi mikilvægu aðgerðum. Ég get því ekki tekið undir þau orð hv. þingmanns að skógræktin muni koðna niður á næstu árum miðað við þær áætlanir sem má sjá í fjármálaáætlun og ég get ekki skilið hvernig hægt er að lesa það í rauninni út úr henni. Það er þá bara mitt að skýra það betur hér og nú og ég geri það að sjálfsögðu með glöðu geði og vona að ég geti sannfært hv. þingmann um það.

Hvað varðar síðari spurninguna um stofnun þjóðgarðs á Ströndum, þá var það ekki eitt af þeim atriðum sem var kveðið á um í stjórnarsáttmála. VG hefur ekki gefið eftir það mál neitt sérstaklega, en það hefur svo sem ekki heldur komið til umræðu enn sem komið er hvort ráðist verður í það, enda verður slíkt líka að ráðast af áætlunum sem unnar eru af fagfólki í stofnunum ráðuneytisins, þannig að við verðum kannski svolítið að sjá hvað kemur út úr því líka.