148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni yfir að hæstv. ráðherra geri sér ferð hingað til lands til að taka þátt í umræðunni með okkur. Síðan langar mig til að nota hér fyrra tækifæri mitt til að eiga orðastað við ráðherra að spyrja hann út í þær fréttir að Landvernd er búin að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar vegna endurbóta á Þingvallavegi. Það stóð til að framkvæmdir hæfust í haust.

Forsagan er reyndar löng og ströng og afleiðingin er sú að vegurinn er að molna. Hann er að molna niður undan síaukinni umferð, ekki síst á stórum langferðabifreiðum. Hann er hreinlega orðinn hættulegur fólki, náttúrunni. Þjóðarskömm er orðið sem er notað um ástandið á þessum vegi í þessari perlu okkar Íslendinga. Ég ætla að fara aftur til 16. febrúar sl. Þá tilkynnti Skipulagsstofnun ákvörðun um að endurbætur á þessum 9 km kafla á Þingvallavegi séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Það mátti kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærufrestur var til 23. mars. Þann dag kom kæra Landverndar inn þar sem þess er krafist að úrskurðurinn sé felldur úr gildi — hæstv. ráðherra þekkir þetta — og endurbætur á veginum verði stöðvaðar á meðan kærumálið er í ferli úrskurðarnefndar.

Úrskurðurinn byggði meðal annars á umsögnum ýmissa aðila þar sem engar athugasemdir voru gerðar við framkvæmdina. Það er tvennt sem stingur í augu. Annars vegar að hér er um að ræða endurbyggingu á vegi, ekki nýframkvæmdir, og það hefur ekki gerst áður að mér vitandi að slík endurbygging á vegi fari í umhverfismat, það hefur átt við nýframkvæmdir. Það er síðan annað mál að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir hafa legið fyrir í opinberum gögnum um langt skeið og það hefði flýtt málinu hefði kæran komið fram fyrr.

Ég spyr, í ljósi þeirra metnaðarfullu markmiða sem sett eru fram, meðal annars hvað það varðar að koma í veg fyrir spjöll á náttúru vegna umferðar ferðamanna: Telur ráðherra þessa kæru vera af hinu góða fyrir málaflokkinn sem hann stýrir núna?