148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innleggið. Þetta hljómar eins og ég búi í útlöndum af því ég gerði mér ferð til að koma hingað. En það er nú alls ekki þannig. Ég er eiginlega alltaf á Íslandi enda reyni ég að fljúga eins lítið og ég get.

Ég þekki svo sem ekki mikið til þessa máls sem hv. þingmaður nefnir nema ég sá þetta í fréttum, hvort það var í gær eða í dag, og hef ekki lesið mér meira til um þetta, á hvaða grundvelli nákvæmlega þessi kæra er sett fram. Hins vegar er það alveg ljóst að kærurétturinn er til staðar, við deilum ekki um það. Hv. þingmaður nefnir líka á hvaða tíma þetta kemur fram í ferlinu. Ég held að kæran sjálf hefði í raun ekki getað komið fram á öðrum tíma í ferlinu, þannig eru lögin og þannig eru Evróputilskipanirnar sem á þessu byggja.

Hvort kæran er af hinu góða, það á ég mjög erfitt með að tjá mig um hafandi ekki kynnt mér málið meira en einungis lesið af því í fjölmiðlum. Það sem ég veit hins vegar um þetta mál almennt er það sem ég hef heyrt frá Þingvallanefnd eftir að ég varð ráðherra. Þar er, eins og hv. þingmaður lýsti, verið að reyna að bregðast við ástandi sem er orðið mjög alvarlegt. Lýsingarnar sem ég hef heyrt af þessu eru þær að þarna eigi að breikka veginn, reyna að fella hann eins vel að landslagi og hægt er og þar fram eftir götunum. Ég get því miður ekki svarað þessu með öðrum hætti en almennum eins og staðan er núna.