148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka fyrir. Áfram á aðeins svipuðum nótum, alla vega á jörðu niðri. Ein helsta áskorunin innan umhverfismálaflokksins er að tryggja að nýting lands sé sjálfbær, meðal annars samfara auknu álagi, vegna verulegrar fjölgunar ferðamanna er sækja landið heim. Eitt af þeim markmiðum sem tengjast þessari áskorun, og kemur fram í áætluninni, er að árið 2023 sé álag á 95% áfangastaða á náttúruverndarsvæðum innan þolmarka. Síðan er spurt hvernig ná eigi því markmiði vegna þess að staðreyndin er sú, og það kemur líka fram í áætluninni, að þegar spurt er um stöðuna 2017 stendur í reitnum: Staðan er óþekkt, eða öllu heldur „ekki vitað“. En við vitum það samt í raun, við vitum að staðan er víða eins og í villta vestrinu.

Það er eiginlega tekið undir það í texta með þessum markmiðum þar sem talað er um að til þess að hámarka virði ferðaþjónustu til lengri tíma sé nauðsynlegt að vernda landið og náttúru þess með markvissri stýringu. Það má nefna að nýta hagrænar aðferðir eins og veitingu sérleyfa eða gjaldtöku á sérlega viðkvæmum svæðum til að draga úr átroðningi. Töluvert er fjallað um þessa stýringu — eðlilega — en síðan þegar talað er um á öðrum stað í fjármálaáætluninni, af því þetta er fjármálaáætlun, og það er verið að tala um gjaldtöku í ferðaþjónustu, þá er verið að tala um komugjöld. Ég held að ég hafi rétt fyrir mér þar að komugjöld á flugvöllum stýri ekki aðgengi á náttúruperlunum okkar, alla vega ekki þannig að náttúruvernd sé höfð í fyrirrúmi.

Ég er að velta fyrir mér þessum köflum, þar sem verið er að tala um komugjöld í ferðaþjónustu. Og ég spyr vegna þess að ekki er hægt annað en að spyrja hér, svörin fást ekki, það er alltaf verið að skoða hlutina: Er verið að tala um komugjöld í ferðaþjónustu og síðan sérgjöld á ákveðnum stöðum því til viðbótar? Eða tala þeir ráðherrar sem eru með þennan málaflokk hvor í sína áttina?