148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að eyða af mínum dýrmæta tíma aðeins í að þakka ráðherra fyrir að mæta til okkar. Það er alveg til fyrirmyndar. Það eru ekki allir ráðherrar sem hefðu breytt plönum sínum til að vera við þessa umræðu þannig að ég þakka ráðherra það. Megi aðrir taka sér hann til fyrirmyndar í að forgangsraða fyrir þingið.

Það er ýmislegt í þessari fjármálaáætlun sem er vitanlega hægt að ræða þegar kemur að ráðuneyti hæstv. ráðherra. Það er eflaust hægt að deila um hvort aukning fjármuna sé næg, sumum finnst það ekki, það má kannski segja að þetta sé ekki í samræmi við yfirlýsingar sem gefnar hafa verið og þær væntingar sem margir höfðu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í ákveðna hluti sem standa í áætluninni. Hér er m.a. rætt um miðhálendisþjóðgarð nokkrum sinnum. Hvaða áhrif telur hæstv. ráðherra að stofnun slíks þjóðgarðs hafi á t.d. auðlindanýtingu innan þjóðgarðsins? Þjóðgarðurinn er býsna stór og allt gott um það að segja. Það sem ég er að velta fyrir mér eru áhrif á auðlindanýtingu innan þjóðgarðsins.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra annars úr áætluninni, um það sem kemur fram á bls. 83, í lið 17, umhverfismálum, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Aðrar helstu útgjaldabreytingar á málefnasviðinu felast í aðgerðum til að tryggja að nýting lands sé sjálfbær, m.a. samfara auknu álagi vegna fjölgunar ferðamanna.“

Ég er aðeins að velta fyrir mér hvernig eigi að tryggja að nýting lands sé sjálfbær miðað við þessa setningu sem ég las og þá um leið að velta fyrir mér hvort þarna sé verið að hugsa um landbúnað að einhverju leyti og þá hvaða áhrif hugmyndir um að tryggja að nýting lands sé sjálfbær hafi á íslenskan landbúnað.

Síðan er líka talað um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Ég fagna því frumvarpi en velti fyrir mér hlutverki sveitarfélaganna. (Forseti hringir.) Það eru aðallega tvær fyrri spurningarnar í þessu fyrra slotti sem mig langaði að fá svör við.