148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil taka spurninguna lengra. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því, meðan ekki kemur inn annað fjármagn í tekjuöflun, að tekin verði upp gjaldtaka víðar í bæði þjóðgörðum og einhverju sem tengist náttúrunni? Það væri til þess að vernda náttúruna og auka enn frekar þjónustu. Við vitum að það sem er verið að gera núna varðandi þjónustugjöldin á Þingvöllum og fleiri stöðum sem hæstv. ráðherra nefndi dugar ekki til uppbyggingar eða til verndar náttúrunni, og ekki síst til stýringar.

Hin spurningin er allt annars eðlis. Við skulum fara vestur á firði og líka austur á firði, þetta tengist áhættumatinu er varðar laxeldið. Við viljum byggja upp fiskeldi á ábyrgan hátt og ég sé þetta sem framtíðaratvinnugrein, hún er þegar hafin, og ég sé þetta sem eina af okkar grundvallaratvinnugreinum, en það verður að byggjast á áhættumatinu. Ég er með ákveðnar efasemdir og er nokkuð smeyk um að Hafrannsóknastofnun (Forseti hringir.) sem þarf að fá kraft og stuðning frá þinginu og frá ríkisstjórninni fái ekki nægilegt fjármagn til að standa undir ábyrgu áhættumati. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að slíkt fjármagn verði (Forseti hringir.) tryggt til að atvinnugreinin fiskeldi geti haldið áfram að byggja sig upp á ábyrgan hátt?