148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Á næstu fimm árum er stefnt að því að verja um 327 milljörðum kr. til málefnasviða sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem er málefnasvið 6 að hluta og 8 og 11, tæplega 7,4% af ramma fjármálaáætlunar. Aukning frá fjárlögum yfirstandandi árs og ramma fjármálaáætlunar 2019 nemur um 7,8%.

Varðandi samgöngurnar er umtalsverð viðbót að koma inn núna, meira en hefur sést í mörg ár. Sem dæmi má nefna að um 25% aukning er til samgangna milli fjárlaga áranna 2016 og 2018 enda varð veruleg aukning á fjárlögum vegna yfirstandandi árs. Strax á næsta ári bætast 4,3 milljarðar við og verður alls 43 milljörðum kr. varið til samgangna og fjarskipta á næstu árum. Á næstu þremur árum er stefnt að því að það verði um 16,5 milljarðar, þ.e. 5,5 milljarðar á ári næstu þrjú árin.

Víða er þörf á brýnum úrbótum þrátt fyrir að verulegum fjármunum sé varið til samgönguframkvæmda og viðhalds. Eftir því sem nær dregur sumri hefur komið í ljós að ástand vega er enn verra en þó hafði verið reiknað með eftir mjög óhagstæðan vetur fyrir vegi landsins. Ég mun leggja áherslu á að bregðast strax við því. Vandinn vex með degi hverjum.

Mikilvægt er að verja þau verðmæti sem liggja í vegakerfinu og tryggja öryggi vegfarenda. Samgönguáætlun sem nú er í vinnslu verður lögð fyrir Alþingi næsta haust. Hún verður eðli máls samkvæmt í samræmi við fjármálaáætlun. Síðustu vikur hefur samgönguráð farið landshorna á milli til að heyra áherslur og forgangsröðun heimamanna. Meðal brýnna samgönguframkvæmda í samgönguáætlun má nefna fækkun einbreiðra brúa, tvöföldun vega, göng og nýjar brýr. Þá verður ný Vestmannaeyjaferja tekin í notkun í haust og framkvæmdir við Dýrafjarðargöng ganga vel og mun þeim ljúka á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Enn fremur standa yfir samningaviðræður um yfirtöku ríkisins á Hvalfjarðargöngum. Reiknað er með að það verði á haustmánuðum og gjaldtöku hætt samhliða.

Á næstu árum verður auk þess unnið að því að auka hlut almenningssamgangna og unnið að því að lækka hlutfall losunar gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir að auka fé til viðhalds á flugvöllum innan lands en öflugar samgöngur um land allt stuðla að því að efla byggð og standa undir stuðningi við atvinnugreinar víðs vegar um landið. Einnig erum við að skoða hvernig hægt er að efla innanlandsflugið í heild sinni. Áskorunin er að tryggja rekstrargrundvöll flugvallakerfisins og auka viðhald en nýframkvæmdir hafa setið á hakanum og lendingarstöðum hefur verið lokað. Þeirri þróun verður að snúa við.

Öryggi í samgöngum er mér hjartans mál sem ég hef lagt áherslu á í samgönguáætlun og mælikvarðar í fjármálaáætlun miða að því að fækka slysum í öllum samgöngugreinum.

Varðandi byggðaáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi, og verður vonandi mælt fyrir í næstu viku, þingsályktunartillaga um nýja byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Vinnan við áætlunina hefur falið í sér mun víðtækara samráð en áður. Það hefur verið með opnu samráði á vefnum en einnig hefur verið sérstaklega haft samráð við alþingismenn, landshlutasamtök sveitarfélaga, öll ráðuneytin og ákveðnar stofnanir. Áfram verður unnið að því í gegnum byggðaáætlun að jafna búsetuskilyrði landsmanna, m.a. hvað varðar raforku- og fjarskiptamál. Unnið verður að því að styrkja lýðræðislega aðkomu íbúa að ákvörðunum um byggðamál í gegnum sóknaráætlun landshluta. Þá verður lögð áhersla á að kortleggja aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila til að bæta yfirsýn og skapa þar með grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað.

Í fjármálaáætlun 2019–2023 er áfram aukið við fjárveitingar síðustu ára. Þannig verða fjárveitingar til byggðamála um 790 millj. kr. meiri en stefnt var að í gildandi fjármálaáætlun.

Varðandi landsátakið Ísland ljóstengt hefur það gengið samkvæmt áætlun og leitt af sér fjölgun staðbundinna ljósleiðarakerfa. Áætlað er að því verði lokið árið 2020. 99,9% heimila verða þá beintengd ljósleiðara. Farsæl uppbygging fjarskiptainnviða um áratugaskeið, ekki síst síðustu ár, hefur skilað þeim árangri að Ísland komst í 1. sæti á heimsvísu í fjarskiptum og upplýsingatækni á mælikvarða Alþjóðafjarskiptasambandsins árið 2017. Þar hefur spilað inn í virk samkeppni, mikil fjárfesting og umtalsverð nýsköpun sem einkennir þau lönd sem raðast í efstu sæti listans auk þess jafnræðisátaks sem við höfum lagt áherslu á.

Við getum sem Íslendingar verið stolt af mörgu sem (Forseti hringir.) við höfum gert en varðandi verkefni ráðuneytisins eru líka stórar áskoranir fram undan sem við þurfum að takast á við.