148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það verða aðrar spurningar undir í seinni hálfleik. Við komum aðeins inn á hafnir og flugvelli. Ég held að það séu kannski mannvirki sem hafa svolítið lent til hliðar í þeirri alvarlegu stöðu sem er í samgöngukerfinu, vegakerfinu okkar. Það gleymist því að ræða hversu gríðarlega stór verkefni eru þarna fyrir framan okkur. Það er staðreynd að í mjög stórum mikilvægum höfnum víða um land eru komin til ára sinna stálþilin sem halda fyllingunum undir höfnunum; mjög algengt að þau séu frá áratugnum 50 til 60. Það þýðir að þau eru að byrja að gefa sig. Það eru mikil verðmæti undir. Ef þetta gefur sig þá fara fyllingarnar, þá fara hafnargólfin. Það eru mörg dæmi um þetta, þar sem þetta er að gerast. Það er alveg ljóst að það þarf að setja í þetta mikla fjármuni. Einnig er ástandið á flugvöllunum mjög bagalegt. Þar hefur bara verið hægt að vera í algjörum lágmarksrekstri á undanförnum árum.

Við erum með flugvelli víða um land sem eru illa farnir. Við erum með mjög stór og brýn verkefni fram undan. Aukið millilandaflug gerir miklar kröfur á að vellirnir, t.d. á Akureyri og Egilsstöðum, geti sinnt hlutverki sem varaflugvellir. Það þarf að byggja þar flughlöð. Völlurinn á Egilsstöðum — þar er milljarða framkvæmd fram undan í klæðningu á gólfi vallarins eða aðalbrautum vallarins. Minni flugvellir eru margir hverjir mjög sveltir og þarfnast viðgerða. Reykjavíkurflugvöllur — þar gæti orðið stór framkvæmd innan tiltölulega skamms tíma.

Það er alveg ljóst að ekki verður hjá því komist að auka umtalsvert fjármagn í þessa málaflokka. Þannig að ég sé svolítið að þessi hækkun, sem er þó myndarleg og ber að fagna, dugar okkur mjög skammt.

Mig langar aðeins til að biðja hæstv. ráðherra að (Forseti hringir.) fara yfir stöðuna eins og hann sér hana í hafnar- og flugvallarmálum, mér finnst umræðu hafa skort um þá sýn.