148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi flugið, viðhalds- og uppbyggingarþörfina, erum við að tala um 7–8 milljarða sem þarf til. Auðvitað er hægt að dreifa því á einhver ár. Þar erum við að vinna á nokkrum vígstöðvum, m.a. á grundvelli starfshópa sem hv. þingmaður setti af stað þegar hann var í ráðuneytinu sem ráðherra. Við höfum haldið áfram með mjög gott starf sem þar er unnið. Vonandi koma þar skýrar lausnir, hugmyndir að því hvernig við getum styrkt flugið þar. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt og við þurfum að gera miklu betur þar en við höfum verið að gera og horfa á innanlandsflugið sem mikilvægan þátt í almenningssamgöngunum.

Varðandi hafnir og hafnamálin þá var ég á fundi samgönguráðs nýlega þar sem ég var að ræða um að ég vildi kalla eftir betri greiningum á uppbyggingarþörfinni þar. Mér hefur ekki fundist við hafa haft þær upplýsingar nægilega skýrar, hvorki hér í þinginu né í ráðuneytinu og hef kallað eftir því. Ég vonast til að geta sett meiri fókus á það hvað þarf til þar inn til lengri framtíðar. Það hjálpar auðvitað vinnu samgönguráðs sem er þá að setja fram 5 ára áætlun eða 4 ára og 12 ára áætlanir eins og við þekkjum.

Aðeins varðandi gjaldtökuna, sem hv. þingmaður var líka að ræða hér í fyrri ræðu sinni, þá er ég sammála honum um að það er mikilvægt að ákveðins jafnræðis sé gætt. Á fundi sem ég mætti á hjá íbúum á Akranesi er varðaði gjaldtöku í Hvalfjarðargöngin lagði ég einmitt áherslu á að færum við þá leið sem ég sagðist vera opinn fyrir — ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á einhvers konar gjaldtöku — yrði það að vera á einhverjum jafnræðisgrunni, þ.e. að þær aðferðir sem yrðu notaðar væri hægt að nota við fleiri framkvæmdir hringinn í kringum landið við ólíkar aðstæður, en gengið væri út frá jafnræði.