148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Örstutt athugasemd um gjaldtökuna, ég vil minna á að í fjármálaáætluninni stendur að það eigi ekki að fara út í fleiri ríkisábyrgðir á tímabilinu.

En aðeins að sveitarfélögum og byggðamálum. Hérna erum við með þessa fínu þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun, en á sama tíma erum við með stefnumótun í fjármálaáætluninni sem er líka um byggðamál, sveitarstjórnir o.s.frv. Ég skil ekki af hverju það er svona lítið um stefnu í fjármálaáætluninni þar sem hún á í rauninni að birtast, en áætlunin sjálf er tiltölulega nýkomin fram og er tiltölulega ítarleg. Af hverju eru þá atriði í henni ekki í fjármálaáætluninni eða öfugt? Mér finnst a.m.k. að sú stefna sem er núna, og virðist vera gert ráð fyrir að eigi að vera í fjármálaáætluninni, ætti að vera þingsályktunartillaga eins og hún birtist hérna varðandi byggðaáætlunina.

Mér finnst ótækt að heildstæð stefna fyrir öll málefnasvið ríkisins birtist og sé afgreidd í greinargerð í fjármálaáætlun. Hver stefna fyrir sig tel ég að verði að hafa sína þinglegu meðferð. Í tilviki byggðaáætlunar virðist það vera málið og einnig væntanlega varðandi samgönguáætlun.

Ég vildi beina athyglinni að framfærsluhlutfalli sem ég minntist á í ræðu í gær, það er ætlast til þess að framfærsluhlutfall breytist ekki á neinu landsvæði. Mig langaði til að vita hjá hæstv. ráðherra hvernig eigi að ná því markmiði með tilliti til þess að við sjáum fram á þessa líffræðilegu þróun með fjölgun aldraðra á næstunni.