148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum mikilvæga málaflokki sem einnig er í ráðuneytinu hjá mér. Hann spyr um framfærsluhlutfallið og hann var líka að ræða um hvernig fjármálaáætlunin og byggðaáætlunin spiluðu saman. Í töflu á bls. 205 þar sem einmitt er fjallað um framfærsluhlutfallið eru þrjú meginefni byggðaáætlunarinnar, þ.e. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða. Þau eru sett upp og það eru settir inn mælikvarðar, það er reyndar ekki búið að þróa þá alla, það er verið að vinna að því, en það er verið að setja upp rammann í kringum þetta. Sá rammi sem fjármálaáætlunin er í upphæðum er hér. Og það er reyndar ekki rétt að þau breytist ekki, það er talað um að þau hækki ekki í viðmiðunum 2019 og inn í tímann, en það er auðvitað þá með þeim 54 aðgerðum sem eru í byggðaáætluninni og heyra undir þessar þrjár meginleiðir. Það verður að vera mælikvarði á hverja grein þar hvernig það gengur.

Ég held hins vegar að það væri ekki eðlilegt að byggðaáætlunin eins og hún kemur fram væri hluti af fjármálaáætluninni. Þá værum við hér með stafla sem næði niður á gólf og þetta er hinn stóri rammi fjármálanna. Það þarf auðvitað að minnast á þessi markmið.

Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að þau lönd sem hafa þróað þetta hvað lengst byrjuðu svolítið eins og við erum að byrja þessi árin, með mjög mörg markmið, margar áherslur hjá ríkisstjórninni, en síðan mun þeim smátt og smátt fækka. Þá kannski verður fjármálaáætlunin skýrara plagg (Forseti hringir.) um stefnumörkun ríkisstjórnar á hverjum tíma, en ég held að eins og í öðrum löndum hafi það tekið fimm eða tíu ár, jafnvel lengri tíma, að þróa þetta tæki til að það virkaði sem best.