148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra mjög skýrt og greinargott svar við þessum vangaveltum mínum og beinu spurningum. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á og ég hafði sjálfur komið inn á í fyrri ræðu minni eru samningaviðræður ekki hafnar. Erfitt er um vik með fjárskuldbindingar af þeim sökum. Ég minni okkur öll á það hér að fjármálaáætlun er endurskoðuð á hverju ári. Miðað við orð hæstv. ráðherra og það sem ríkisstjórnin hefur sagt varðandi sína stefnu vænti ég þess að við munum, gangi viðræður vel, sjá þess stað í komandi endurskoðunum á fjármálaáætlun hvenær sem þær verða, eftir því sem viðræðurnar ganga.

Mig langar í lokin á seinni ræðu minni að koma inn á þátt af verkefnum ráðuneytisins sem hefur ekki verið mikið til umræðu hér í dag sem eru byggðamálin. Það er sömuleiðis mjög mikið fagnaðarefni að sjá þá aukningu sem fer til byggðamála. Sjálfur er ég sérstaklega ánægður með þá áherslu sem er á samráð við heimafólk á hverjum stað. Mig langar að ræða aðeins við ráðherra um það hvernig samráðið hefur gengið. Það er boðað hér, ef ég skil rétt, að það fari að skila árangri innan ekki of langs tíma. Hvernig stendur vinna við þjónustukortið? Ég tel að það sé mjög mikilvægt tæki fyrir fólk á landsbyggðinni og okkur öll til að setja niður fyrir okkur hvernig við viljum hafa þetta. Hvenær má vænta þess að næstu skref verði tekin í því þó að við sjáum fjármuna hér stað í áætluninni?