148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að vekja athygli á byggðaáætluninni og því nýja verklagi sem þar hefur verið. Þetta mun taka nokkur ár. Þannig tekur stundum slík vinna lengri tíma en ella, en fyrir vikið fá menn betra plagg. Þetta hófst satt best að segja ef ég man rétt í byrjun árs 2016 þegar þáverandi þingmenn voru kallaðir til samráðsfundar. Síðan tók Byggðastofnun svolítið við þessum bolta og eftir að verkefnið var flutt yfir í ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefur lokahnúturinn verið hnýttur þar með samráði við öll landshlutasamtökin og að nýju við ráðuneytin, við mjög marga aðila. Síðan var nýtt þessi samráðsgátt og við fengum núna á lokametrunum í mars, ef ég man rétt, 28 umsagnir sem gleðilegt nokk voru mjög jákvæðar. Sumar hverjar bættu við tillögum sem var tekið tillit til, aðrar voru með ábendingar, en allar voru þær mjög jákvæðar. Þetta voru tillögur hvaðanæva úr samfélaginu, hringinn í kringum landið. Það var mjög ánægjulegt að sjá það.

Þess vegna er mikilvægt að nú þegar þetta plagg hefur birst með 54 tillögum sé búið að setja ákveðna fjármuni á mörg verkefni. Ekki öll því að sum heyra undir önnur ráðuneyti einnig. En það er aukning í þessum málaflokki um 780 eða 790 milljónir á tímabilinu þar sem búið er að eyrnamerkja hvenær verkefnin fara inn, í hve miklum mæli og til hvaða hluta og líka hvernig menn ætla síðan að meta árangurinn af þessu og hafa þá mælikvarða til þess. Þetta eru mjög mörg og mikilvæg verkefni. Ég held að samráðið þarna hafi skipt öllu máli.

Örstutt varðandi þjónustukortið. Það er bara á góðri siglingu. Byggðastofnun er að vinna að því og ég vænti þess að það muni birtast fyrr en seinna á þessu ári.