148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir fyrirspurnina. Ég er sammála honum að það er auðvitað þannig að ef við náum að aðskilja akstursstefnur á þeim vegum sem eru hvað mest keyrðir er það eina leiðin til að forðast alvarlegustu slysin. Það getur auðvitað alltaf komið fyrir að menn keyri út af eða hagi sér með einhverjum þeim hætti að slys geta orðið. Þess vegna get ég ekki sagt hversu mörg slys þarf til. Auðvitað viljum við ekki að eitt einasta slys verði.

Við erum hins vegar í stóru verkefni. Ég veit að hv. þingmaður er mikill stuðningsmaður þess að tvöfalda og klára Reykjanesbrautina. Fjármálaáætlunin er engin samgönguáætlun. Hún er þessi stóri fjárhagsrammi um það hvernig við getum síðan rammað inn samgönguáætlunina. Það er þar sem við förum að ræða um forgangsröðun verkefna. En það er þó þannig að annars vegar á Reykjanesbrautinni eru tvö, líklega frekar þrjú, verkefni sem fyrirhuguð eru á þessu ári til að laga hættulega staði, sem ég held að við höfum rætt fyrr í vetur, hv. þingmaður. Eins er á Kjalarnesi fyrirhuguð í það minnsta ein framkvæmd og undirbúningur að því sem þar skal koma. Síðan verður það í samgönguáætluninni sem birtist okkur í haust, þ.e. upphæðirnar þar verða samkvæmt fjármálaáætluninni þannig að vitum svolítið um hvaða fjárhæðir við erum að tala, og þá kemur forgangsröðunin fram í hvaða framkvæmdir menn fara á hvaða tíma og í hvaða röð inn í annars vegar fyrstu árin og síðan þá líka lengra.

Ég er sammála hv. þingmanni og ræddi það við fleiri þingmenn fyrr í umræðunni um mikilvægi þess að auka fjármuni til viðhalds. Vegirnir hafa farið mjög illa í vetur og mikilvægt er að bregðast þar við.