148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni nokkrar spurningar til viðbótar. Varðandi forganginn þá lagði ég, í bréfi mínu til samgönguráðs sem undirbýr samgönguáætlun, áherslu á umferðaröryggi, að það sé lykilþátturinn. En við þurfum líka að muna eftir því að við erum að byggja upp grunnþjónustu um allt land þannig að fólk geti komist frá heimili til vinnustaðar á öruggan hátt. Það eru því mörg verkefnin. Ekki er hægt að segja að allir fjármunirnir eigi að fara í eitthvað eitt, heldur verður umferðaröryggi að vera lykilþátturinn í forgangsröðuninni.

Varðandi flugvellina og hugmyndina um dráttarbíla þá er það eitt sem við höfum aðeins verið með til skoðunar. Varðandi tilvikið sem hv. þingmaður minntist á, þá brást ráðuneytið við með því að óska eftir upplýsingum frá Isavia sem ég bíð eftir að fá, um það hvernig þær aðstæður voru og hvort einhver hætta hafi verið þar uppi. Við erum með þrjá aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll, sem eru varaflugvellir, það er Reykjavík, Akureyri og Egilsstaðir. Þarna gátu menn sem betur fer tekið við fjórum þotum á Egilsstöðum, tveimur á Akureyri og bjargað því sem bjargað varð.

Varðandi það sem hv. þingmaður minntist á í fyrri ræðu sinni, að aukningin um Reykjanesbraut væri um 15%, þá er það líka rétt að sums staðar annars staðar er aukningin gríðarleg. Á árinu 2016 frekar en 2017 var aukningin um Reynisfjall, þ.e. á veginum í Vík í Mýrdal, um 89% á því ári. Á árinu 2017, ef ég man rétt, á veginum fyrir austan Vík, þ.e. á Mýrdalssandi, sem er hættulegur vegur, var aukningin um 24% og langt umfram landsmeðaltal. Þessir vegir eru líka eitt af því sem við þurfum að horfa á þegar við erum að horfa á umferðaröryggi. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ein leið til að auka umferðaröryggi væri að draga úr hraða. Það er eitt af því sem þarf að skoða þó að ekki hafi komið til álita að taka slíka ákvörðun. Fari vegakerfið enn neðar og verði enn lakara þurfum við að taka þann þáttinn upp einnig, hvort það komi til greina á einhverjum tilteknum svæðum.