148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Það er ljóst að við höldum þessari umræðu áfram og höldum vöku okkar í þessum málum. Ég óska hæstv. ráðherra velfarnaðar á þeirri vegferð að gæta jafnræðis allra landsmanna í þessum málum.

Mig langar að beina sjónum að netvörnum. Nú hefur Ísland um nokkurt skeið verið mjög neðarlega á lista yfir stöðu þjóða hvað varðar netöryggi. Á þetta mál er aðeins drepið í fjármálaáætlun. Það er einfaldlega lykilatriði fyrir okkur Íslendinga að eiga í nánu samstarfi við vini okkar og nágrannaþjóðir og læra af þeim í þessu tilfelli vegna þess að það getum við svo sannarlega. Þá er líka rétt að benda á það hér, sem til dæmis hefur ítrekað komið fram í máli forsvarsmanna lögreglunnar, að það er mikilvægt að við verðum ekki tossinn í bekknum. Í þessum málum er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn og við viljum sannarlega ekki vera veikasti hlekkurinn í öryggismálum.

Fyrr í vikunni fundaði Norðurlandaráð á Akureyri. Þar var samþykkt í forsætisnefnd ráðsins að beina þeim tilmælum til ríkisstjórna norrænna stjórnvalda að auka samstarf landanna á sviði netvarna og þá einnig samstarf við Eystrasaltsríkin en það eru þau sem eru komin einna lengst í þessum málum, Eistland sér í lagi. Það liggur því beint við að Norðurlönd leiti samstarfs við þau lönd um netvarnir. Þessi tillaga var reyndar ekki samþykkt einróma því að flokkahópar vinstri grænna studdu hana ekki. Mér þætti gott og mikilvægt að heyra hér viðhorf ráðherra málaflokksins til þessa máls og jafnframt skoðun hans á því hvort afstaða Vinstri grænna í þessu samnorræna samstarfi hafi áhrif á það hvernig íslensk stjórnvöld munu nálgast málið. Erum við Íslendingar eða erum við ekki á leið að þiggja þetta góða boð, að læra af og vera í samstarfi við Norðurlönd á sviði netvarna til að koma okkur upp úr tossabekknum?