148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nei, við erum kannski ekki í tossabekknum þegar kemur að netöryggi en við erum örugglega í tossabekknum þegar kemur að samgöngumálum almennt, vegum. Hér talaði hæstv. ráðherra áðan um að við ættum og værum að byggja upp grunnþjónustuna. Innviðirnir skiptu okkur miklu máli. Verðmætasköpun íslenska hagkerfisins. Tenging strjálbýlla byggða við höfuðborgarsvæðið og höfuðborgarsvæðisins við útlönd. Þarna verða verðmætin í rauninni til.

Framlög til vegamála hafa setið á hakanum í mörg undanfarin ár. Vegir eru illa farnir, þeir eru að grotna niður og sumir eru einfaldlega ekki til. Raunar boðaði þessi ríkisstjórn slíkt stórátak í uppbyggingu vegakerfisins að annað eins hafði ekki heyrst. Við sjáum það hins vegar ekki í fjármálaáætluninni. Hæstv. samgönguráðherra hefur fyrr á þessu ári kynnt áætlun um að það þurfi 200 milljarða í fjárfestingar í kerfinu, en hér boðar hann í stórátakinu aukningu upp á 5,5 milljarða næstu þrjú árin og í lok tímabilsins er talan lægri en hún er hér í dag.

Staðan er bara svo alvarleg og þetta dropi í hafið þegar kemur að öllu sem vantar inn í þetta kerfi. Samkvæmt áætluninni þá verða framlög til vegamála áfram undir langtíma meðaltali af landsframleiðslu og við erum langt undir þeim þjóðum í nágrenni við okkur sem eru þó búnar að byggja upp grunnkerfi sitt. Þess vegna finnst mér rétt að spyrja hæstv. samgönguráðherra: Finnst honum eðlilegt að kerfið fái að drabbast áfram niður? Finnst honum heiðarlegt að kalla þetta plagg stórátak í samgöngumálum? Getur það ekki falið í sér ákveðið oflof á eigin verkum?