148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að til þess að ná að kljúfa þetta verkefni þurfum við að gera meira en hér birtist. Það er enginn, og allra síst sá sem hér stendur, að tala um að þegar við höfum sett 16,5 milljarða á næstu þremur árum, þessa 5,5 milljarða til viðbótar inn í kerfið, séum við búin að ná kúfnum niður því að ef við horfum á þetta ágætisgraf sem hér er og sjáum tímabilið þegar ekkert var gert, þá tekur miklu lengri tíma að vinna það upp. Sá tími sem ekkert var gert eða mjög lítið hefur líka valdið því að viðhaldið hefur drabbast niður. Verkefnið er í raun og veru stærra og það birtist okkur vel þessar vikurnar eftir mjög slæman vetur.

Ég lít svo á að við séum að fara að hraða uppbyggingunni en við þurfum að horfa til langs tíma. Í samgönguáætluninni þurfum við að horfa til lengri tíma og jafnvel í fjármálaáætluninni. Við þurfum að setja okkur eitthvert ákveðið mark, eins og t.d. mér hefur skilist að Þýskaland geri þar sem menn setja ávallt, held ég, um 1,5% af landsframleiðslunni til þessa málaflokks. Við þurfum hins vegar að taka svolítið á til að komast á eitthvert jafnvægissvið og þangað erum við ekki komin.