148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Þetta er mjög áhugavert efni sem hv. þingmaður kom hér inn á og því miður hef ég bara eina mínútu til að ræða það. Staðan er sú að núverandi grunnur okkar, tekjugrunnurinn undir vegakerfið, er að hrynja vegna þess að við erum að ýta undir nýorkubíla sem engin eldsneytisgjöld eru greidd af. Ef ég man rétt, og algjörlega með þeim fyrirvara, eru tekjurnar, sem einu sinni voru markaðar tekjur til vegamála, fyrst og fremst eldsneytisgjöldin, um 17 milljarðar. Eldsneytisgjöldin hafa alltaf, nema örfá ár 2011, 2012 og 2013, ef ég man rétt, farið til vegamála. Síðan má líka ræða meiri tekjur af bílum, vörugjöld, innflutningstolla og bifreiðagjöld, sem ekki hafa verið þessarar mörkuðu tekjur sem hafa vissulega runnið í ríkissjóð til að fjármagna aðra hluti.

Það þarf að endurskoða tekjugrunninn, þ.e. eldsneytisgjöldin. Við erum að fara í þá vegferð að hækka kolefnisgjöld. Ég heyrði hv. þingmann ræða það hér við umhverfisráðherra fyrr í dag. (Forseti hringir.) Það verður að vera samspil þarna á milli. Þeir sem nota vegina, hvort sem þeir kaupa bensín og olíu eða rafmagn, munu allir þurfa að greiða fyrir notkun (Forseti hringir.) á vegunum þegar fram í sækir. Það er orðið aðkallandi að fara í þessar breytingar.