148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:06]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég get alveg sagt hvernig við fórum að áður en Skeiðará var brúuð. Við fórum á plönkum og á vörubílspöllum. Við gætum jafnvel tekið upp aftur þessa aðferð, hún er mjög hagkvæm.

Ég fagna þeirri áherslu á öryggi í samgöngum sem er að finna í fjármálaáætluninni, en í ljósi þess að samgönguáætlun liggur ekki fyrir fyrr en í haust verður aðeins að rýna í textann um markmið og aðgerðir til að reyna að lesa út forgangsatriðin. Í 11. málefnasviði, um samgöngumál, eru sérstaklega taldar upp samgönguframkvæmdir eins og Dýrafjarðargöng, Dettifossvegur, Grindavíkurvegur og Vesturlandsvegur um Kjalarnes. En í 4. lið undir samgöngu- og fjarskiptamálum eru hins vegar taldar upp allt aðrar framkvæmdir. Ný brú og vegur um Hornafjarðarfljót, ég mæli með því, Skagastrandarvegur, tvöföldun Suðurlandsvegar og ný Ölfusárbrú, vegur um Borgarfjörð eystri, Seyðisfjarðargöng, brú yfir Jökulsá á Fjöllum og að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar.

Þetta eru mörg verkefni og dýr. Á fjárlögum 2018 eru áætlaðir 39 milljarðar til málaflokksins, en í lok tímabilsins árið 2023 eru áætlaðir 36 milljarðar. Fjárframlög í samgöngur, fjárfestingar og viðhald lækkar sem sagt yfir tímabilið, ef undanskilin eru þessi þrjú ár þar sem sérstakt átak er boðað fyrir hluta bankaarðsins.

Telur ráðherra raunhæft að með þessu 16 milljarða aukaframlagi árin 2019–2021 nái hann að koma til framkvæmda þessum samgöngumannvirkjum sem hann telur upp í fjármálaáætlun? Mér telst til að með áætluðum fjármunum næstu fimm árin, framreiknuðum með tilliti til hóflegrar verðbólgu, tæki (Forseti hringir.) 19–27 ár að klára þær, en gefnar hafa verið vonir um að þær verði kláraðar næstu fimm árin.