148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við ræðum hér mikilvægan part fjármálaáætlunar, reyndar eru allir hlutar hennar mikilvægir, en það eru samgöngumálin. Á þessum örskamma tíma sem ríkisstjórnin hefur verið við störf hefur birst okkur sem fylgjumst með umræðum um samgöngumál ákveðinn hringlandaháttur. Það er öllum ljóst að búið er að blása hér til stórsóknar, það er búið að byggja upp skýjaborgir og hvað kemur síðan í ljós?

Þegar upp er staðið er í rauninni engin aukning. Raunaukning til samgöngumála er sáralítil og þegar við förum í lok fjármálaáætlunarinnar, við lok þessa tímabils 2023, þá er raunuppbygging til innviða 2 milljarðar. Það er allt sem stórsóknin snýst um. Það er í rauninni sorglegt að horfa upp á hæstv. samgönguráðherra sem ég að vissu leyti vorkenni að koma með alla þessar skýjaborgir en síðan þegar tölurnar koma fram þá tala þær sínu máli.

Hann byrjar á því að útiloka strax allar þær hugmyndir sem hv. þm. Jón Gunnarsson setti fram um að reyna að byggja upp einhverja aðra tekjumöguleika til þess að ýta af stað öllum samgönguframkvæmdunum sem þurfa að fara af stað. Þær eru strax slegnar út af borðinu. Mánuði síðar er allt í einu byrjað að tala um veggjöld og síðan heldur hæstv. ráðherra áfram og segir að það sé hugsanlegt að taka upp veggjöld, hugsanlega ekki, kannski ef hægt er að fara aðra leið. Engin skilgreining er tæk. Það veit enginn nákvæmlega hvað hæstv. ráðherra á við með þessu.

Ég ráðlegg hæstv. ráðherra, og vona að því sé tekið með mikilli vinsemd, að tala sem minnst um fjármögnun samgöngukerfisins. Frekar að kalla til alla stjórnmálaflokka til þess að reyna að finna út þau úrræði sem við þurfum því að það þarf meira fjármagn inn í samgöngur og uppbyggingu innviða en fjármálaáætlun segir til um. Það er ekki hægt eingöngu með því að taka fjármagn af fjárlögum beint. Reynum frekar(Forseti hringir.) að sammælast um aðgerðir til að byggja upp raunhæfar tekjur til þess að fara í enn frekari stórsókn í samgöngumálum. (Forseti hringir.)Stórsóknin er nefnilega ekki í samgönguáætluninni og fjármálaáætluninni sjálfri.