148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:35]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að sjá að áform um afnám virðisaukaskatts á bækur eigi að ganga fram. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að ná fram þessu baráttumáli sínu.

Því miður virðist manni þó að nokkuð vanti upp á fjárveitingar til þess að stórsókn í menntamálum standi fyllilega undir nafni, eða til lista. Samkvæmt þessari fjármálaáætlun verða framlög til lista ekki aukin á kjörtímabilinu heldur þvert á móti lækkuð. Það var eindregið kosningaloforð allra flokka fyrir síðustu kosningar að framlög til háskólastigsins skyldu ná viðmiðum OECD árið 2020. En samkvæmt fjármálaáætluninni á að ná einum þriðja af því árið 2023, samkvæmt tölum frá upplýsingaþjónustu Alþingis sem byggjast á tölum frá OECD.

Mér er ekki ljóst hvort framlög til byggingar á Húsi íslenskra fræða eru inni í þessum tölum. Þar er náttúrlega ekki beinlínis um að ræða framlög til starfsemi heldur fé sem rennur til byggingaraðila og væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra nánar um það. Svipað virðist manni upp á teningnum varðandi annað hjartans mál ráðherrans, aðgerðaáætlun um máltækni. Þar á að verja ríflega 750 milljónum kr. til viðbótar við þær tæplega 500 milljónir kr. sem áður hefur verið varið til verkefnisins, þ.e. um 1.250 millj. kr. Kostnaður við verkáætlun um máltækni er hins vegar áætlaður um 2.700 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir að 500 milljónir komi frá fyrirtækjum og annað eins gegnum markáætlun. Enn virðist því vanta tæplega hálfan milljarð upp á að þessi áætlun sé fullfjármögnuð. Fróðlegt væri að heyra nánar um það.