148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:42]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í þessari fjármálaáætlun sem hér er til umræðu er talað um að nemendum bjóðist heildstætt og markvisst starfsnám á framhaldsskólastigi sem liður í að fjölga nemendum sem ljúka slíku námi. Það gefur svo möguleika á áframhaldandi námi svo sem á háskólastigi. Talað er um að fleiri nemendur ljúki prófi á tilskildum tíma og það verði liður í að hækka menntunarstig þjóðarinnar.

Nú verður hæstv. ráðherra að aðstoða mig við túlkunina á þessu orðalagi. Ég skil það þannig að þegar verið er að hækka menntunarstig þjóðarinnar sé sem flestum ætlað að sækja nám á háskólastigi. Eru það skilaboðin? Eða er ætlunin að auka fjölda þeirra sem ljúka námi jafnvel á framhaldsskólastigi? Ég hef einmitt skilið það þannig að það sé ákall eftir iðn- og tæknimenntuðu fólki. Ég velti þessu fyrir mér þar sem ég veit að það er von á námskrá í iðn- og tækninámi, sem einnig er kallað starfsnám eða verknám, fer eftir hver talar. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra eftir því hvort henni hugnist í sambandi við þetta að setja iðnnámið undir skólana þannig að það séu þeir sjálfir sem ákveði og finni meistara, semji við vinnustaði og geri þannig námið allt markvissara.

Ég grundvalla þessa spurningu á því að OECD hefur bent á að stjórnsýsla, skipulag og útfærsla námsins sé einmitt flókin og óskýr og standi ekki undir þeim væntingum sem við eigum að setja.