148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og inngang hans er varðar fjölmiðla á Íslandi. Það er alveg ljóst að einkareknir fjölmiðlar standa frammi fyrir miklum áskorunum. Um leið og ég fékk skýrslu hópsins í hendurnar fór strax af stað vinna í ráðuneytinu til að meta áhrif tillagnanna á þessa fjölmiðla og áhrif á markaðinn í heild sinni. Ég á von á að fá niðurstöður þessarar vinnu, ég hugsa að það séu svona sex til átta vikur í það. Í framhaldinu munum við móta tillögur sem eru til þess fallnar að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.

Það er verið að skoða stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skoða til að mynda rannsóknarsjóð fyrir fjölmiðlafólk og skattalegt umhverfi einkarekinna fjölmiðla. Eins og ég kynnti hér í innganginum er búið að setja það í opið samráð að lækka virðisaukaskattinn á áskriftarmiðlana. Það er alla vega að mínu mati þannig að samkeppnin, ekki bara innlenda samkeppnin heldur samkeppnin á alþjóðavísu, er orðin svo miklu meiri í dag en fyrir fimm árum. Þetta tengist líka íslenskunni og hvernig við sjáum hana til framtíðar. Ég tel mjög mikilvægt, og er sammála hv. þingmanni um það, að þessar tillögur — leiðir og stefna, hvernig við ætlum að bæta rekstrarumhverfið — liggi fyrir áður en við endurnýjum þjónustusamninginn.