148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hvað varðar Hús íslenskra fræða er staðan á því sú að við erum að láta endurmeta kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina sem er brýnt að gera vegna þess að við munum sjá ákveðið aðhald í tengslum við þetta. Mér þykir dálítið erfitt að nefna tölu hvað þetta varðar á þessum tímapunkti þar til ég er búin að fá þessa endurskoðuðu áætlun.

Ljóst er að við gerum ráð fyrir afnámi virðisaukaskattsins á bækur og lækkun á fjölmiðla í kringum 800 millj. kr. á tekjuhliðinni. Ég tel brýnt að við förum í þessa aðgerð, m.a. vegna þess að bókaútgáfa hefur átt undir högg að sækja, eins og allir vita, og fjölmiðlar líka. Ég tel að þetta séu nauðsynlegar aðgerðir í þágu þess að efla bókaútgáfu og fjölmiðla á Íslandi.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur út í þessar 700 millj. kr., ég verð bara að viðurkenna að ég þarf aðeins betri skýringar hvað þær varðar.

Varðandi menningu og listir þá er það rétt að ákveðið aðhald er í þessum málaflokki. Við þurfum að vinna áfram með það hvernig við getum forgangsraðað en ég tel engu að síður mjög brýnt að við leggjum fram nýja fjármálaáætlun eftir ár. Ég mun halda áfram að berjast fyrir þessa málaflokka og tel ótrúlega mikið af tækifærum í menningunni hjá okkur. Hún er að vaxa. Allt er tengist skapandi greinum. Við munum halda áfram að einblína á þennan málaflokk eins og við mögulega getum.