148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:20]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég fagna því að ráðherra gerir sér glögga grein fyrir því að hér er um raunhæft viðfangsefni að ræða. Hér er í raun og sanni um alvarlegt vandamál að ræða í okkar samfélagi. Ég hef ekki nefnt alla þá þætti sem að þessu lúta. Sumir þeirra eiga sér afar dökkar hliðar, að ekki sé meira sagt. Ég held að allir viti um hvað er rætt þar.

Ég leyfi mér þá að vænta þess í framhaldi af ræðu ráðherra að gengist verði fyrir úttekt sem færustu sérfræðingar kæmu að þar sem leitað yrði að skýringum á því hvað það er í íslenska skólakerfinu sem gerir það að verkum að fólki, þá kannski ekki síður af karlkyni, vegnar ekki nægilega vel eða líður ekki nægilega vel í skólanum. Ég ætla nú bara að leyfa mér að vitna í eftirminnilega setningu úr kosningabaráttunni þar sem ágætur flokksfélagi minn, séra Halldór Gunnarsson í Holti, var í sjónvarpsþætti um menntamál og sagði þá setningu sem ég hef nú stundum minnt hann á síðan: Meginatriðið er að börnunum líði vel í skólanum og kennurunum líka. Þetta er nú ágæt lína.

Ég vil nota tækifærið líka og minna á það, fyrst ég er nú farinn að tala um kosningabaráttuna, að þá var mikið talað um að iðnnámið fengi þann sess sem því ber, m.a. með því að kynna það ungu fólki sem er að velta fyrir sér sinni framtíðarbraut, atvinnutækifærum og tekjumöguleikum þeirra sem leggja fyrir sig iðnnám. Ég vil leyfa mér að inna ráðherra eftir því hvað hún sjái fyrir sér varðandi þetta efni.