148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála því sem Halldór í Holti segir að það sé mest um vert að íslenskum nemum og kennurum líði vel í menntakerfinu okkar. Eitt af því sem kemur vel út í alþjóðlegum könnunum er að íslenskum nemum líður vel í skólanum sínum, þrátt fyrir að aðrir mælikvarðar sýni að til að mynda lesskilningi, náttúrulæsi og stærðfræðilæsi hafi hrakað, en þá alla vega líður þeim vel. Við þurfum að halda í það, en við þurfum líka að ná upp ákveðinni hæfni hvað hina þættina varðar.

Ég vil bara taka þessu tilboði sem hv. þingmaður leggur hér til á þessum þingfundi okkar um að fara í þessa úttekt. Við horfum fram á nokkrar stórar áskoranir í menntakerfinu. Ein er til að mynda staða barna af erlendum uppruna, önnur er staða ungra drengja í menntakerfinu okkar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni sem nefnir bæði þessa tölfræði og ákveðnar staðreyndir um stöðu ungra karlmanna í íslensku samfélagi. Mér finnst mjög brýnt að við komumst að því hvers vegna staðan er svona, hvernig við getum bætt og fjölgað tækifærum þessa hóps.

Varðandi iðnnámið þá finnst mér mjög brýnt að við förum inn í grunnskólana. Eins og ég hef nefnt hér þá fækkar valgreinum talsvert á unglingastiginu. Ef við erum með færri valgreinar þá vita nemendur í raun og veru ekki hvað er í boði, þannig að mér finnst mjög brýnt að við eigum samtal við sveitarstjórnarstigið um það hvernig við getum náð upp þeim markmiðum sem við settum okkur um skapandi greinar og önnur valfög sem nýtast mjög vel þegar kemur að því að velja nám til framtíðar.