148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Það er mjög ánægjulegt að hlusta á hæstv. menntamálaráðherra tala um aukna áherslu á menntamálin. Það er gríðarlega mikilvægt að — hæstv. menntamálaráðherra hefur ákveðið að bregða sér frá — (Gripið fram í: Það er flokkssystir þín sem er … ) Það er gríðarlega mikilvægt að við leggjum aukna áherslu á menntamálin. Við vitum auðvitað að framtíðarsamfélagið byggist einmitt á þekkingu, færni og aukinni áherslu á menntun. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að verið er að gera það einmitt. Mér þykir reyndar að hæstv. ráðherra sé dálítið stóryrt þegar hún talar um stórsókn í menntamálum þegar niðurstaðan er sú að verið er að auka framlög til málaflokksins alls um u.þ.b. 1% á ári frá fyrri fjármálaáætlun. Það er vissulega aukning, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en stórsókn telst það nú tæpast.

Hins vegar þegar við horfum á þennan mikilvæga málaflokk finnst mér þetta tal enn þá allt mjög yfirborðskennt. Mér finnst markmið í fjármálaáætluninni mjög óljós og loðin og að raunar hafi þeim farið aftur frá fyrri fjármálaáætlun og frekar hefur verið dregið úr skýrri markmiðssetningu. Mér finnst að það þurfi einmitt að huga að endinum í upphafi. Hvað ætlum við að fá út úr þessu aukna fjármagni? Hvaða árangri viljum við raunverulega ná? Hverju á þetta að skila?

Það sem ég hefði áhuga á er að heyra hæstv. ráðherra tala aðeins betur um hvaða grundvallarárangursmælikvarða hún leggi til á hverju skólastigi fyrir sig. Þar megum við ekki gleyma grunnskólanum, þó svo að hann sé rekstrarlega á ábyrgð sveitarfélaganna, þá er hann auðvitað faglega að töluverðu leyti á ábyrgð stjórnvalda hér.

Ég hefði líka áhuga á að heyra nánar um áherslur ráðherra þegar kemur að háskólanum og ekki síst tæknigreinunum og aukningu tæknigreinanna, en þar er einmitt einn árangursmælikvarði sem dettur út frá fyrri fjármálaáætlun, (Forseti hringir.) þar sem sett voru fram skýr markmið um hvernig við myndum auka aðsókn nemenda í (Forseti hringir.) tæknigreinarnar á háskólastiginu, en þeim árangursmælikvarða er núna kippt út. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér: Erum við að leggja minni áherslu á það, því að það er þar sem við (Forseti hringir.) stöndum helst að baki öðrum OECD-ríkjum þegar kemur að hlutfalli nemenda sem sækja (Forseti hringir.) inn í tæknigreinarnar á háskólastigi.

(Forseti (BHar): Ég minni hv. þingmenn enn og aftur á tímamörkin.)