148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mikil aukning hefur átt sér stað er varðar fjárframlög, bæði á háskólastiginu og framhaldsskólastiginu, við höfum ekki séð svona mikla aukningu frá árunum 2016–2018 og svo áfram inn í framtíðina í talsvert langan tíma. Þetta þekkir hv. þingmaður mjög vel.

Hvað varðar markmiðssetningu og hvað við ætlum að fá fyrir þessa stórsókn, sem hún svo sannarlega er, þá held ég að það sé þannig og maður verður þess áskynja að meiri bjartsýni er núna á háskólastiginu hvað varðar þessar nýju fjárveitingar sem ríkisstjórnin hefur farið í. Við viljum auðvitað fjölga nemum sem útskrifast á háskólastiginu. Við viljum fjölga nemum sem útskrifast á framhaldsskólastiginu. Við viljum fjölga nemum sem útskrifast með iðn-, tækni- og verknám. Þetta hlutfall er miklu lægra á Íslandi. Hvernig gerum við það? Jú, við setjum okkur ákveðin markmið, til að mynda að passa upp á valgreinarnar, eins og ég nefndi fyrr í dag, að við náum ákveðnum markmiðum á grunnskólastiginu er varða valgreinar. Ef nemar hafa aðgengi að valgreinum átta þeir sig á því hvað er í boði. Þetta eru markmið sem við erum að setja okkur.

Eins og hv. þingmaður þekkir líklega hefur á tiltölulega skömmum tíma, ég myndi segja á síðustu 10–15 árum, menntunarstig þjóðarinnar hækkað nokkuð ört. Þetta á við um framhaldsskólastigið. Það var í kringum 45% eða 48%, en er komið upp í 55%. Við setjum markmiðið á 60%. Við erum líka að setja okkur markmið er varðar iðnnámið, að fleiri fari þangað. Við erum með skýrar aðgerðir hvað það varðar til að auka aðgengi að þeim greinum. Ég held að sú áætlun sem við höfum sett sé algjörlega raunhæf. Námið og aðsókn nemenda í það þarf að endurspegla það sem er að gerast líka í samanburðarríkjunum.