148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að auðvitað er mjög mikilvægt að efla rannsóknir og þróun og nýsköpun, að sjálfsögðu. Á þessu tímabili erum við að auka framlögin um tæp 9%. Mér finnst líka mjög brýnt, og ég er alveg sammála hv. þingmanni, að þetta fé dreifist jafnt, þ.e. hlutfallið af þessu rannsóknafé þarf að endurspegla líka þá háskólastarfsemi sem er nú þegar til staðar. Ég held því að ég vilji beita mér í þá veru og mér finnst það skipta máli.

Hvað varðar iðnnámið, verk- og starfsnámið, tel ég að mjög brýnt sé að við höldum áfram á þeirri leið sem við höfum verið, en við þurfum hins vegar að gera betur. Við erum nýbúin að sjá tölur hjá Hagstofunni þar sem er fækkun í raun og veru. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ef við stígum ekki alvöruskref og bjóðum upp á alvöruvalmöguleika hvað þetta varðar er veruleg hætta á því að ákveðið verkvit verði ekki til staðar í landinu. Ég vil því bjóða hv. þingmanni að taka þátt í þessari vegferð með okkur. Ég veit að hann þekkir sérstaklega vel til málsins vegna fyrri starfa hans. Þetta er líka þannig verkefni að við þurfum að taka það inn á grunnskólastigið, við þurfum að vera virkari á framhaldsskólastiginu. Þetta er líka þannig að við þurfum að hafa samstarfið við atvinnulífið sérstaklega gott. Það þarf að einfalda alla stjórnsýslu sem tengist þessu. Það erum við að gera. En allar góðar hugmyndir frá hv. þingmanni eru mjög vel þegnar hvað þetta mál varðar.