148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að benda á grein Jóns Torfa Jónassonar og að hún hafi verið rituð árið 1997 og benda á þessi hlutföll, hvað þau voru sláandi og hvað þau eru sláandi enn í dag.

Hv. þingmaður spyr hvernig ætlum við að ná árangri, hvernig við ætlum að snúa þessari þróun við. Ég ætla að nefna nokkra þætti sem ég hef reyndar nefnt áður í dag en geri það aftur. Í fyrsta lagi, m.a. vegna athugasemda og ábendinga frá hv. þingmanni, þá lögðum við áherslu á það að afnema efnisgjöld eins og hv. þingmaður þekkir og ég tel að það hafi verið mikilvægur liður. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í þeim efnum. Í öðru lagi erum við að einfalda og efla allt stjórnskipulag sem tengist starfs- og iðnnámi í landinu. Sú vinna hefur nú verið í gangi í ákveðinn tíma. Þetta er gert til þess að bæta aðgengið fyrir suma nema, þeim hefur stundum fundist ekki vera alveg nógu mikið á hreinu hvort þeir t.d. komist á samning eða hvernig þessum hlutum er háttað. Við verðum að einfalda aðgengið að náminu til þess að þau fái ákveðna vissu fyrir því hver námsframvindan verður.

Við erum að gera og innleiða rafræna ferilbók sem ég held að skipti líka máli. Skipulag í kringum námið verður þá skilvirkara. Við setjum okkur markmið um að fjölga þeim sem eru í iðnnámi og þurfum að fylgja því eftir. Við horfum til grunnskólastigsins og við erum gagnrýnin á það hvernig skipulag valgreina er, eins og ég er búin að nefna. Ég vona að við náum árangri, við erum að leggja okkur fram, en ég er sammála hv. þingmanni um það hvernig þessi þróun hefur verið, hún hefur verið alls ekki nógu góð.