148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég er á svipuðum stað og margir fyrri ræðumenn hafa verið. Í kaflanum um framhaldsskólana kemur fram að árið 2016 hafi 60% framhaldsskólanemenda sótt stúdentsprófsbrautir en 30% starfsnámsbrautir. Hlutfall nemenda sem sækja starfsnám er lágt að mínum dómi. Það er skortur á iðnmenntuðu fólki í landinu og það er nauðsynlegt að stjórnvöld hvetji til iðnnáms með skipulögðum hætti og jafnvel með einhvers konar ívilnunum.

Iðngreinar eru samfélaginu mjög mikilvægar. Það upplýsinga- og kynningarstarf sem er þegar í gangi er ekki nægilegt, það þarf að hvetja meira til iðnnáms. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að efla starfsnám. Ég get ekki séð að það sé eitthvert átak í efnum í áætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára og er það miður. Það er talað fallega um hlutina en svo ekki söguna meir. Að sama skapi finnst mér ekki nægilega vel haldið utan um nemendur af erlendum uppruna. Brottfall þeirra úr framhaldsskóla er mjög hátt eða um 60%, þetta kom fram m.a. í svari menntamálaráðherra á 146. löggjafarþingi við fyrirspurn þáverandi þingmanns, Nichole Leigh Mosty. Í áætluninni kemur fram að ríkisstjórnin ætli einungis að kanna stöðuna en það þarf ekkert að kanna hana, það liggur alveg fyrir, það er búið að því, það kemur skýrt fram í svarinu.

Það er jákvætt að skoða eigi aðrar tillögur sem hafa komið upp til að sporna gegn brotthvarfi eins og með setningu lýðháskóla. Að lækka viðmið í brotthvarfi um 3 prósentustig á fimm árum úr 25% í 22% finnst mér ekki metnaðarfullt markmið. (Forseti hringir.) Það er jákvætt að það eigi áfram að endurskoða útdeilingu fjárveitinga til framhaldsskóla með svokölluðu reiknilíkani. (Forseti hringir.) Það er brýnt verkefni og satt að segja skil ég ekki hvað sumir framhaldsskólar koma alltaf illa út úr þessu reiknilíkani í fjárveitingum.