148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að efla starfsnám á Íslandi. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að bæta stöðu barna af erlendum uppruna.

Hvað er ríkisstjórnin að gera hvað það varðar? Ég er ósammála hv. þingmanni um að við séum ekki að gera neitt. Við erum nefnilega að gera heilmikið. Núna á þessum fjárlögum erum við að verja 800 milljónum sérstaklega í þennan viðkvæma hóp nemenda sem sýna litla hæfni í íslensku og stærðfræði. Hvaða nemendur eru þetta? Jú, þetta eru þeir nemendur sem eru líklegastir til þess að hverfa frá námi. Þannig að strax í nýjum fjárlögum, ríkisstjórnin tók við 1. desember, forgangsröðum við fjármunum í þágu þeirra sem eru líklegir til að lenda í brottfalli.

Eins og hv. þingmanni er kunnugt um er brottfall barna af erlendum uppruna úr framhaldsskóla mjög hátt á Íslandi og mér finnst það mjög alvarlegt mál og hef verulegar áhyggjur af því hver framtíðartækifæri viðkomandi barna verða ef við förum ekki markvisst í þetta. Liður í því er að þessari fjármögnun sem ég var að nefna er beint að þessum hópi. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður hafi séð áður í fjármálaáætlun fjallað með jafn afgerandi hætti um börn af erlendum uppruna. Hv. þingmaður getur treyst því að við ætlum svo sannarlega að gera betur og þar er ég líka að horfa til þess að efla íslenskukennslu til handa þessum hópi og að auka aðgengi þessara barna að tómstundum í samvinnu við sveitarfélögin.