148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:49]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Hér áðan var aðeins talað um Listaháskólann, en ég vildi aðeins fá ítrekun á þeim málefnum. Síðustu ár hafa nemendur og kennarar Listaháskólans kvartað yfir þjónustu og húsnæði skólans. Gekk það svo langt nú í janúar að nemendur ætluðu sér ekki að greiða skólagjöld vorannar 2018. Með þeirri yfirlýsingu sendu nemendur Listaháskólans frá sér bréf. Í því segir m.a., með leyfi forseta:

„Árum saman hafa nemendur sviðslistadeildar kvartað yfir slæmum aðbúnaði og þjónustu við sig án þess að komið hafi verið til móts við þá með fullnægjandi hætti. Þvert á móti hafa aðstæður nemenda á sviðslistadeild versnað samhliða því að skólagjöld hækka með hverju ári sem líður.“

Nemendur nefndu manneklu, búninga- og leikmunageymslu sem væri mjög bágborin, að ekki væri staðið við loforð um að um alþjóðlegt nám væri að ræða, auk þess sem ekki væri séð fyrir þeirri aðstöðu sem eðlilegt er að sé til staðar fyrir nema sem stunda nám við Listaháskóla. Eins og ráðherra eflaust veit er húsnæðið sem notað er nú sýkt af myglu og í niðurníðslu. Það lekur úr skolprörum og úr lofti í rýmum skólans.

Af þeirri fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir get ég ekki séð að taka eigi málefni Listaháskóla Íslands föstum tökum. Telur ráðherra að unnt sé að koma starfsemi og húsnæðismálum Listaháskóla Íslands í viðeigandi horf miðað við þær tölur sem birtast hér í fjármálaáætlun?