148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ein af stóru áskorununum sem við stöndum frammi fyrir í íslensku menntakerfi er sú að nýliðun í kennarastétt hefur ekki verið sú sem óskandi hefði verið. Við horfum upp á það að ef við förum ekki í neinar aðgerðir muni skorta í kringum 2.000 kennara á grunnskólastigi árið 2035. Um leið er að verða mikil fjölgun á grunnskólanemum, þ.e. við horfum upp á árgang sem verður í kringum 5.700 manns.

Það er því alveg ljóst í mínum huga að við verðum, og erum að gera það, að grípa til aðgerða til að sjá fram á fjölgun á leikskóla- og grunnskólastiginu. Þetta verðum við að gera í góðri samvinnu og samstarfi við kennara, við kennaraforystuna, við Samband íslenskra sveitarfélaga, háskólastigið. Ég ætla að fara yfir það í betra tómi með hv. þingmanni hvaða aðgerðir við erum nákvæmlega að fara í.