148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir hennar svör. Ég er með fleiri spurningar. Varðandi aðgengi að menningu þá minntist hún á menningarhús og við þekkjum þau, þau eru sums staðar búin að rísa og það er vel. En ég á sérstaklega við starfsemi eins og Sinfóníuna og Óperuna og fleira sem er kostað af okkur öllum skattgreiðendum, að þessar stofnanir fari meira út um landið. Ég veit að þær hafa gert það, en ég bjó nú í 16 ár í Vestmannaeyjum og ég man ekki eftir að þær hafi komið þangað á þeim tíma. Ég skal ekki fullyrða það algjörlega.

Varðandi bókaútgáfuna vil ég sérstaklega fagna því að virðisaukaskattur af bókaútgáfu verði felldur niður og þótt fyrr hefði verið.

Annað sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um er þjóðarleikvangurinn í Laugardalnum. Afrek fótboltalandsliðs okkar eru slík að ekki er nokkur leið að sjá þau berum augum nema með því að vera sérstaklega fær á miði.is til að ná að komast á völlinn. Hér stendur um markmið: Efla umgjörð og stuðning við afreksíþróttafólk. Einnig er talað um viðræður við Reykjavíkurborg og íþróttahreyfinguna um uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal. (Forseti hringir.)Hvað þýðir þetta? Er gert ráð fyrir einhverju fjármagni til uppbyggingar þjóðarleikvangsins í Laugardal á tímabilinu, (Forseti hringir.)nú þegar verður lækkun framlaga í málaflokknum í heild eins og við höfum rætt um hérna?