148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Mér finnst greinilegt að það er verið að gefa þessu grafalvarlega vandamáli gaum í ráðuneytinu. Þær fyrstu hugrenningar sem verið er að vinna með hljóma margar mjög skynsamlegar.

Ég held hins vegar að ef við horfum upp á launasetningu kennara á grunnskólastigi — og auðvitað erum við að glíma við svipuð vandamál á Landspítala varðandi hjúkrunarfræðinga og ljósmæður eins og frægt er orðið — þurfum við að ná utan um þessar fjölmennu kvennastéttir sem augljóslega eru of lágt launaðar miðað við menntun sína og tækifæri til starfa annars staðar á betri kjörum, jafnvel við minna álag, þægilegri vinnutíma o.s.frv.

Hafandi allnokkra reynslu af vinnumarkaði gef ég í þessu tilfelli ekki neitt fyrir þessi hefðbundnu stöðugleikarök, að hér setjum við allt á hliðina með því að taka á þessum vanda. (Forseti hringir.) Það er alveg augljóst að hinn almenni vinnumarkaður er að taka á svona vandamálum á hverjum einasta degi með því að hækka laun til hópa sem sérstaklega mikil eftirspurn er eftir eða vöntun á. Hið opinbera launakerfi ræður ekki við þetta. (Forseti hringir.) Það er alveg augljóst að í þessum hópum, sérstaklega þessum fjölmennu kvennastéttum, er þetta orðinn mikill uppsafnaður vandi. Ég vona að hæstv. ráðherra taki undir með okkur í að taka á þessu vandamáli.