148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í fjármálaáætlun kemur fram að yfir stendur endurskoðun á lögum um veiðigjöld. Útgerðin hefur kallað eftir lækkun veiðigjalda og ýmsir stjórnarliðar hafa sagst vilja svara því kalli.

Þjóðin á rétt á því að fá sanngjarnan arð af auðlind sinni og stjórnmálamenn eiga ekki að hlaupa til og lækka hlut þjóðarinnar um leið og útgerðin kvartar. Það er skoðun okkar í Samfylkingunni að besta leiðin til að fá fullt verð fyrir fiskveiðiauðlindina sé að bjóða út aflaheimildir. Ef stjórnarflokkarnir vilja ekki bjóða út kvóta sem nú þegar hefur verið úthlutað, ættu þeir í það minnsta að bjóða út viðbótarkvóta vegna sterkra fiskstofna.

Þorskstofninn hefur aldrei mælst stærri en við síðustu mælingar Hafrannsóknastofnunar. Það verður því að teljast afar líklegt að tillaga um viðbótarkvóta komi fram fyrir næsta fiskveiðiár, líkt og fyrir það síðasta, enda hefur kvótinn nærri tvöfaldast síðustu tíu fiskveiðiár, farið úr 130 þús. tonnum í 258 þús. tonn. Þorskkvótinn hefur verið aukinn á þremur síðustu fiskveiðiárum um samtals 40 þús. tonn. Mælingar Hafrannsóknastofnunar benda eindregið til að kvótinn verði enn aukinn á næstu fiskveiðiárum. Ef lögum um fiskveiðistjórn verður ekki breytt á næstu vikum, verður viðbótarkvótanum skipt á milli núverandi kvótahafa á næsta fiskveiðiári eins og þeim fyrri.

Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort það sé virkilega ætlunin, rétt enn einu sinni, að skipta viðbótarkvótanum á milli núverandi kvótahafa á næsta fiskveiðiári? Ef svarið er já, þá bið ég hæstv. sjávarútvegsráðherra að útskýra fyrir mér, hvers vegna hann vill gera það.