148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil í tilefni orða hennar nefna það hér að umræðan um veiðigjöldin, fjárhæð þeirra, hefur staðið æði lengi. Þessi umræða hófst, og mikill þungi var í henni, þegar áhrifin af lokun markaða hófust, lokun á Rússamarkaði sérstaklega og skreiðarmarkaði í Nígeríu, og fleiri þættir spiluðu þar inn í; jafnhliða því að gengisþróunin var með þeim hætti að þessi atvinnugrein átti í mjög miklum erfiðleikum.

Þessi umræða hefur staðið hátt í tvö ár þannig að ég er ekki sammála því að það eigi að hlaupa til þó svo einhverjar atvinnugreinar, sama hvort það er sjávarútvegur eða aðrar, kvarti undan gjaldtöku. Það á bara að nálgast málið á yfirvegaðan hátt og taka skynsamlegar ákvarðanir.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður ber hér upp, varðandi sterka fiskstofna og mögulegar viðbætur í kvóta, þá hef ég enn ekki séð neinar tillögur. Ég hef heyrt af niðurstöðum rallsins og sem betur fer erum við sammála um það að fiskstofnarnir eru gríðarlega sterkir og það fiskveiðistjórnarkerfi sem Íslendingar hafa haft, þó að það hafi löngum verið umdeilt, hefur sannað sig með þeim hætti að stofnarnir eru sterkir.

Ég er ekki á þeirri skoðun að við eigum að bjóða upp fiskveiðikvóta. Það er mín sannfæring að fyrirkomulagið á stjórnun fiskveiðimála Íslendinga hafi skilað þjóðinni mjög ábatasömu fiskveiðistjórnarkerfi, þ.e. í þágu þjóðarinnar. Þetta er sjávarútvegur sem stendur í fremstu röð og stenst allan samanburð við sjávarútveg hvar sem svo við leitum í veröldinni. Við erum stolt af því. Ég tel óráð að breyta því kerfi með því að hlaupa til í skyndingu. Við eigum að gaumgæfa það en ég er ekki á þeim stað staddur í dag að ég svari þessari spurningu játandi.