148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef örlítið kynnt mér þetta mál varðandi vottunina og hvernig sú vinna snertir grásleppuveiðar okkar. Við áttum ágætan fund í ráðuneytinu með forsvarsmönnum Landssambands smábátaeigenda um þetta mál. Það er alveg ljóst að rannsóknirnar, eins og hv. þingmaður segir, voru ekki nákvæmar og má draga í efa hversu traustur grunnur undir ákvörðun þær rannsóknir sem við erum að stunda í þeim efnum eru. Það held ég að sé allra mál. Hafrannsóknastofnun eða þeir starfsmenn sem vinna þar eru ekki að nálgast þetta mál með þeim hætti að þeir telji að þeir séu að leggja fram einhver heilög vísindi. Það eru allir upplýstir um ónákvæmni þeirra vísinda sem standa að baki þessu. Eina raunhæfa mælingin sem við sjáum er aflinn sem við berum að landi í grásleppunni. Hann er að dragast saman af einhverjum ástæðum sem við ekki kunnum almennilega skil á.

Það er hins vegar alveg ljóst að þeir sem stunda veiðarnar geta líka gert betri skil á upplýsingum til Fiskistofu en gert er. Það held ég að allir séu sömuleiðis sammála um. Þannig að allir sem við þetta vinna, hvort heldur er rannsóknarmegin eða stunda veiðarnar, hafa viðurkennt að við getum gert betur og eigum að stefna að því að reyna að gera það. Það er alveg augljóst af öllum áherslum og straumum varðandi stöðu okkar á mörkuðum erlendis að krafan um rekjanleika, um sjálfbæra nýtingu og ábyrgð í auðlindanýtingu verður alltaf ríkari og meiri eftir því sem fram líða stundir. Við eigum öll tækifæri til þess að standa okkur mætavel og enn betur þar en við erum að gera í dag. Við eigum einfaldlega að nota okkur þá stöðu.