148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að beina hér spurningum að hæstv. ráðherra. Eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins frá því í nóvember 2017 er orðið ljóst að íslenskar reglur varðandi innflutning á hrárri og unninni kjötvöru og reglur um mjólk samrýmist ekki almennum viðskiptaákvæðum EES-samningsins. Íslenskar landbúnaðarafurðir eru þeim kostum gæddar að við erum að mestu laus við kampýlóbakter. Frystingin hefur verulega dregið úr hættunni á þessum sjúkdómum sem valda þjóðarbúinu búsifjum með því að fólk getur verið frá vinnu sökum sýkingar en Ísland er með lægstu tíðni kampýlóbaktersýkinga í Evrópu samkvæmt upplýsingum frá Karli G. Kristinssyni, yfirlækni sýklafræðideildar Landspítalans.

Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Verður hægt að bregðast eitthvað við þessari niðurstöðu EFTA-dómstólsins öðruvísi en að breyta íslenskum reglum til samræmis við reglur EES? Ef innflutningur á hráu kjöti verður heimilaður, telur ráðherra að bregðast þurfi við með auknum framlögum til Matvælastofnunar í útgjaldaramma landbúnaðarins eða er hægt að láta innflutningsaðila bera kostnað sem hlýst af auknu eftirliti?

Einnig væri ágætt að heyra skoðanir ráðherra á aðgerð sem nefnd er í landbúnaðarkaflanum. Það á að koma á fót öflugum sjóði sem styrkir nýsköpunar- og þróunarverkefni í matvælaframleiðslu. Er hugmyndin að efla að einhverju leyti framleiðnisjóð landbúnaðarins eða breyta fyrirkomulagi á þeim sjóði?