148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að frumvarp sem kemur fram um veiðigjöldin verði unnið með svipuðum hætti og önnur frumvörp. Þau eru oftast nær unnin í ráðuneytunum, stundum koma nefndir þingsins fram með frumvörp o.s.frv., og síðan fara þau í opið og gegnsætt umsagnarferli sem er síðan unnið með í þinginu. Ég geri einfaldlega ráð fyrir því að sambærilegt verklag yrði haft við frumvarp sem kæmi fram til leiðréttingar á hvort heldur er veiðigjaldi, endurreikningi, breytingu á lögum um stjórn fiskveiða eða hvaðeina. Þetta er hátturinn. Þetta er venjulega boðað í þingmálaskránni þegar ríkisstjórnin leggur hana fram að hausti og svo er hún endurskoðuð í janúar.

Það sem hefur breyst sérstaklega varðandi umræðuna um veiðigjaldið og fjárhæð þess er sú staðreynd sem liggur fyrir, að afkoman í þessari atvinnugrein hefur versnað andstætt óskum okkar, ekki ár frá ári heldur sjáum við þess stað þegar í dag. Við fáum sömuleiðis fyllri upplýsingar um „réttmæti“ þeirrar gjaldtöku sem nú liggur fyrir og byggir á afkomu og tekjum þessarar atvinnugreinar á árinu 2015 að stærstum hluta. Ég gat um það í mínu fyrra svari að úttekt Deloitte leiddi fram ákveðnar stærðir í þeim efnum. Þetta verður alltaf erfitt.

Ég fagna því hins vegar að við hv. þingmaður deilum skoðun á mikilvægi þess að færa ákvörðunina nær í tíma. Ég vildi gjarnan að hægt væri að taka upp (Forseti hringir.) sama fyrirkomulag í þessum efnum og varðandi tekjuskattinn sem var tekið upp fyrir aldamótin. Ég held þó að við eigum töluvert langt í land með að ná þeim áfanga.