148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Til að svara strax varðandi markaðsjöfnunarsjóðinn lýsti ég því yfir á aðalfundi Landssambands sauðfjárbænda að mér litist vel á að skoða hugmynd sem þessa án þess að ég tæki beina afstöðu til þess innihalds sem í henni er. Ég fagnaði því að bændur kæmu fram með þessa hugmynd og lýsti því jafnframt yfir að hugmyndir sem þessar yrði að taka upp og ræða í endurskoðunarhópum um búvörusamninga. Ég hef beint þeim tilmælum til forystu nefndarinnar að beina sjónum fyrst í sínu verki að vanda sauðfjárræktarinnar í landinu því að hann er ærinn. Þar þarf að vinna ýmis verkefni og takast á við þau. Eitt af þeim sem getur liðkað fyrir í þeirri stöðu sem sauðfjárræktin er að glíma við er þessi hugmynd sem forysta Landssambandi sauðfjárbænda kom fram með um markaðsjöfnunarsjóð. Það er hið besta mál.

Eins fagna ég þeirri áherslu sem hv. þingmaður tekur undir varðandi matvælastefnu. Þar er þjóðþrifaverk að vinna. Á slíkum grunni getum við kannski skipulagt aðkomu stjórnvalda betur að því verki sem þau þurfa að eiga með bændum landsins. Ég minni sömuleiðis á verkefni sem ríkisstjórnin hefur nú þegar líka samþykkt sem snýr að innkaupastefnu hins opinbera og snýr að því að marka okkur stefnu varðandi innkaup og leggja áherslu á vistvæn innkaup ríkisins. Í ljósi samkeppninnar um sem styst og minnst kolefnis- eða sótspor ætti innlend framleiðsla að hafa mjög góða stöðu til að standa sig vel í samkeppni við vörur annars staðar að (Forseti hringir.) í þeim efnum.