148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir hans yfirferð sem verður að segjast eins og er að veldur nokkrum vonbrigðum. Engin aukning er í málaflokkum hæstv. ráðherra nema síður sé á þessum fimm árum sem fjármálaáætlun tekur til, hann ríður því ekki feitum hesti frá fundi með hæstv. fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokks. Landbúnaður þarf að þola tæplega 700 millj. kr. niðurskurð á næstu árum og sjávarútvegurinn kvartmilljón. Ýmis markmið eru reifuð í texta en minna fer fyrir þeim í upptöldum markmiðum þó að aðgerðirnar séu vissulega nokkrar.

Fjölmörg sóknarfæri í íslenskri matvælaframleiðslu eru ekki síst vegna umfangsmikillar fjölgunar ferðamanna á liðnum árum. Jákvætt er að horfa eigi til heilnæmrar matvælaframleiðslu og að auka eigi verðmætasköpun innan greinarinnar, sem og er jákvætt að huga eigi að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi hennar. En það er ekki hægt annað en að staldra við og spyrja: Hvernig á að fjármagna þessar aðgerðir sem þó eru þarna til þess að ná þessum markmiðum? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að forgangsraða þeim verkefnum sem áætlað er að fara í þegar ljóst er að þau verða varla öll fjármögnuð miðað við svo skert framlög til hans málaflokka?

Sömuleiðis eru sett fram metnaðarfull markmið um að auka nýsköpun í virðiskeðju matvælaframleiðslu og á m.a. að koma á fót öflugum sjóði. En aftur spyr maður: Hver á að standa undir kostnaði við þetta? Eða réttara sagt, þar sem gert er ráð fyrir miklum niðurskurði: Frá hverjum á að taka þetta fjármagn?