148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og lýsi yfir sérstakri aðdáun minni á því að hún þakkar fyrir góða ræðu sem hafi valdið henni vonbrigðum. En við finnum eitthvað út úr því.

Þegar hún ræðir um niðurskurð í landbúnaði sem ég hef heyrt aðra þingmenn ræða þá horfa menn einfaldlega fram hjá gerðum samningi. Framlög til landbúnaðarmála byggja á samningi sem gerður var á milli stjórnvalda og samtaka bænda og gildir til ársins 2026. Ef þingmenn kynna sér þann samning þá sjá þeir einfaldlega hvernig kostnaðarþróuninni þar er háttað. Hún gerir ráð fyrir því að í fyrstunni hækka framlög á milli þess árs áður en samningurinn tók gildi, þ.e. 2016 og 2017, um rétt tæpan milljarð. Síðan var samið á sínum tíma, ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, um breytingar á fjárframlögum eftir því sem árin líða fram á þessum tíu ára tíma. Framlög í fjármálaáætlun eru einfaldlega bundin þeim samningi. Hann er að vísu eins og alþjóð veit í endurskoðun og það eru tvö ár á samningstímanum 2019 og 2023 þar sem gert er ráð fyrir að stjórnvöld og bændur geti tekið samninginn upp. Ég vil gera þetta að sérstöku umræðuefni því að ég hef orðið var við mjög mikinn misskilning í umræðunni um fjármálaáætlunina í þá veru að það sé eitthvert sérstakt markmið hjá núverandi ríkisstjórn að skerða fjárframlög til bændastéttarinnar í landinu. Svo er ekki. Þetta byggir einfaldlega á þeim samningi sem gerður var um málaflokkinn.