148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli og á stuttum tíma er ekki tóm til þess að fara í gegnum allar þessar stofnanir, það er langur vegur frá, en ég leyfi mér að fullyrða það hins vegar að í sumum þeirra er gert ráð fyrir auknum fjármunum til verkefna. Að vísu kemur hluti af því inn á árinu 2018, er þá aukning á milli 2017 og 2018, það heldur sér og er ekki skert. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður lesi úr fjármálaáætlun með þeim hætti að í henni er gert ráð fyrir skerðingu eða hagræðingarkröfu á allar stofnanir, ekki bara á málefnasviðum 12 og 13, heldur í öllum ríkisrekstrinum, ýmist 1% núna á þessu ári sem hækkar síðan í 2% næstu tvö ár þar á eftir, svo endar þetta á 1%. Það er sú hagræðingarkrafa sem er inni.

Ég nefni það sérstaklega varðandi Matvælastofnun að gert er ráð fyrir auknum fjárheimildum þar til tiltekinna verkefna. Ég nefndi það í andsvörum áðan og sá að hv. þingmaður sat undir þeirri umræðu. Ég þakka henni sérstaklega fyrir það. (Forseti hringir.) Þar er gert ráð fyrir fjárveitingu til þess að mæta áhrifum af hráakjötsdóminum svokallaða. Ef fjárheimildir, í þessu tilfelli Matvælastofnunar, eru ekki nægar, þá verða menn (Forseti hringir.) einfaldlega að forgangsraða þeim verkefnum sem undir þá stofnun heyra að öðru leyti.