148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Kaflinn um landbúnað er athyglisverður í þessari fjármálaáætlun. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin greinilega engar áhyggjur af tollasamningnum við ESB, sem tekur gildi 1. maí nk. Engar mótvægisaðgerðir eru boðaðar í fjármálaáætluninni til að mæta þeim miklu áhrifum sem tollasamningurinn kemur til með að hafa á innlenda búvöruframleiðslu. Gleymum því ekki að um 11.000 manns hafa atvinnu af landbúnaði með einum og öðrum hætti og öll ríki vernda sinn landbúnað. Það er ekki séríslenskt fyrirbæri. Fjölmörg störf í landbúnaði geta verið í hættu vegna samningsins. Samningurinn kemur til með að leiða til aukins innflutnings á landbúnaðarvörum í samkeppni við íslenskan landbúnað. Á þetta einkum við í kjöti og ostum.

Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin síðan að grípa til að mæta aukinni samkeppni í landbúnaði vegna innflutnings frá Evrópusambandinu? Það á að leysa málið með nýsköpun, vöruþróun og nýtingu tæknimöguleika. Síðan er talað um aukin tækifæri í landbúnaði með þessum samningi eins og segir í fjármálaáætluninni.

Bændur hafa ekki komið auga á þessi tækifæri. Ég fullyrði það hér, ekki af samtölum mínum við bændur að dæma. Búnaðarþing hefur ályktað um nauðsyn þess að segja þessum samningi upp og semja upp á nýtt, m.a. vegna brostinna forsendna. Nú þegar Bretar eru að ganga úr ESB hverfur okkar stærsta og besta markaðssvæði úr samningnum.

Miðflokkurinn mun flytja á þessu þingi þingsályktunartillögu um að þessum samningi verði sagt upp og samið verði upp á nýtt. Samkeppni er af hinu góða, en hún verður að vera á jafnræðisgrunni. Samningurinn er ójafn. Það þarf að semja upp á nýtt.

Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu sambandi, og í ljósi þess sem hér hefur verið greint frá, og ég hef greint frá í minni ræðu: Hver eru þessi tækifæri sem talað er um í þessum samningi og svo fallega er talað um í fjármálaáætluninni?